Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 768  —  235. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um biðlista eftir afplánun í fangelsi og fangelsisrými.


     1.      Hversu margir karlar eru á biðlista eftir afplánun í fangelsi?
    238 karlar eru á boðunarlista.

     2.      Hversu margar konur eru á biðlista eftir afplánun í fangelsi?
    24 konur eru á boðunarlista.

     3.      Hver er meðalbiðtími þeirra karla og kvenna sem bíða nú eftir afplánun?
    Meðaltalstími þeirra sem bíða eftir afplánun er rúmlega eitt ár og 10 mánuðir. Það er hins vegar rétt að halda því til haga að erfitt er að tilgreina raunverulegan meðalbiðtíma þar sem sá tími sem líður frá því að dómþoli er boðaður til afplánunar þar til afplánun hefst er alls ekki alltaf eiginlegur biðtími.
    Þegar óskilorðsbundinn dómur berst Fangelsismálastofnun til fullnustu fer hann í vinnslu og boðunarbréf er sent út. Með fylgja upplýsingar um samfélagsþjónustu ásamt umsóknareyðublaði ef refsing er allt að tveggja ára fangelsi samkvæmt núgildandi lögum. Oft koma bréfin endursend þar sem dómþoli er ekki á því heimilisfangi sem hann er skráður á. Er bréfið þá sent til lögreglu með beiðni um birtingu fyrir viðkomandi og er hann þá boðaður til afplánunar að liðnum tilteknum tíma frá birtingu.
    Flestir dómþolar senda inn umsókn um samfélagsþjónustu. Uppfylli umsækjandi skilyrði er honum tilkynnt um það, síðan er vinnustaður fundinn og viðkomandi hefur afplánun í samfélagsþjónustu. Í sumum tilvikum er dómþoli með ólokið mál sem er við það að ljúkast og er þá beðið eftir að sá dómur berist til fullnustu.
    Ef dómþoli uppfyllir ekki skilyrði er honum synjað um samfélagsþjónustu og boðaður til afplánunar. Dómþolar sækja gjarnan um frest á afplánun og er heimilt að veita hann í tiltekinn tíma. Þá sækja dómþolar oft um endurupptöku á ákvörðun um synjun.
    Rjúfi dómþoli skilyrði samfélagsþjónustu er honum gefinn kostur á að andmæla og stundum eru andmælin tekin til greina. Ef ekki tekur stofnunin ákvörðun um að afturkalla heimild til að gegna samfélagsþjónustu og dómþoli er boðaður til afplánunar. Þá getur viðkomandi aftur sótt um frest og er hann veittur uppfylli dómþoli skilyrði þar um. Þá kæra dómþolar oft ákvarðanir stofnunarinnar til dómsmálaráðuneytisins sem tekur tíma.
    Eins og sést af framangreindu er mjög erfitt að tala um biðtíma þar sem ferlið getur verið mjög tímafrekt og töluverður tími getur liðið þar til dómþolar hefja afplánun.

     4.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að stytta langa biðlista eftir afplánun í fangelsum landsins?
    Dómsmálaráðuneytið hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að stytta boðunarlista, m.a. í samræmi við skýrslu um tillögur til styttingar boðunarlista frá árinu 2020. Þá hefur auknum fjármunum verði veitt til málaflokksins, m.a. til þess að geta fullnýtt þau pláss sem eru þegar til staðar í fangelsum.
    Það er mat dómsmálaráðherra að grípa þurfi til frekari aðgerða en jafnframt þarf að taka til skoðunar hvort fjölga þurfi fangarýmum. Í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan er í málaflokknum verður þetta tekið til ítarlegrar skoðunar. Meðal þess sem verður skoðað er hvort hægt sé að auka fullnustu refsinga utan fangelsa enn frekar en gert er í dag. Einnig þarf að greina stöðuna í húsnæðismálum nánar, m.a. með tilliti til þess að íbúum landsins hefur fjölgað auk þess sem refsingar hafa verið að þyngjast síðustu ár.

     5.      Hver er viðbúin nýting heildarfjölda fangelsisrýma á árinu?
Nýting afplánunarrýma á árunum 2018–2022 hefur verið sem hér segir:

Ár Hlutfall
2018 85,1%
2019 87,7%
2020 71,8%
2021 78,8%
2022 88,1%

    Á árinu 2022 var Húsi 3 á Litla-Hrauni lokað í rúmlega hálft ár og var nýtingin því meiri en á árunum 2020–2021. Gert er ráð fyrir að nýtingin verði rúmlega 80% á árinu 2023.

     6.      Hverjir eru burðir fangelsa til að mæta því þegar umfangsmiklar sakamálarannsóknir valda því að margir sæta gæsluvarðhaldi á sama tíma? Hafa slíkar rannsóknir áhrif á boðun annarra í afplánun?
    Fangelsið á Hólmsheiði var hannað með mikinn sveigjanleika í huga, m.a. til að geta tekið við mörgum gæsluvarðhaldsföngum á sama tíma. Þannig er hægt að nýta almenna klefa fyrir gæsluvarðhaldseinangrun þegar þörf er á en með því fækkar afplánunarklefum í fangelsinu sem því nemur og getur það því haft áhrif á boðun annarra í afplánun.

     7.      Hefur Fangelsismálastofnun þurft að hætta að boða fanga til afplánunar vegna aðstöðuleysis eða fjárhagsstöðu? Ef svo er, telur ráðherra þá stöðu ásættanlega
    Fangelsismálastofnun hefur þurft að grípa til aðgerða vegna plássleysis og/eða fjárhagsstöðu. Fyrir einhverjum árum var ákveðið að bíða með að boða menn til afplánunar sem ekki áttu kost á samfélagsþjónustu. Það ástand varði hins vegar stutt og þegar grípa hefur þurft til slíkra ráðstafana hefur stofnunin frekar lengt í boðunarferlinu, þ.e. boðað dómþola inn með lengri fyrirvara en almennt er gert, þ.e. 4–6 vikna fyrirvara. Þannig hefur stofnunin getað stýrt boðunum til afplánunar með hliðsjón af lausum plássum, fjárhagsstöðu o.fl. Hins vegar lúta gæsluvarðhaldsfangar öðrum lögmálum. Þeir eru ekki boðaðir til afplánunar heldur kemur lögregla með þá á Hólmsheiði og getur slíkt einnig haft áhrif á stöðu plássa og þar með boðun afplánunarfanga til afplánunar.